Orri óstöðvandi: Draumur Möggu Messi

Eftir að hafa örugglega verið að farast úr spenningi í tæpt ár færðu loksins að vita hvað Magga var valin í. Ekki nóg með það heldur ætlar Magga sjálf að segja þér frá því. Eða alveg þangað til hún lendir í sjúklega hræðilegum umboðsmönnum og ég þarf að bjarga málunum. Ég get alls ekki sagt þér meira án þess að spilla fyrir lestrinum. En ef þér fannst MÖGGU MESSI BÓKIN skemmtileg þá á þér eftir að finnast þessi gjörsamlega STURLUÐ. Þú átt sko ekki eftir að geta lagt hana frá þér í eina sekúndu, ekki einu sinni til að fara á klósettið.

Salka: Tímaflakkið

Útgöngubannið var búið og Benedikt forseti heyrði sögunni til. Eftir að við vinirnir höfðum stoppað hann á ögurstundu breyttist allt til hins betra og lífið varð æðislegt á ný. En bara í smá stund! Nokkrum vikum síðar urðum við nefnilega vitni að sturluðustu tæknibyltingu allra tíma og fljótlega varð ljóst að við þyrftum að bjarga heiminum – aftur! Við notuðum ormagöng Benedikts til að komast aftur til ársins 1992 og vá hvað það var geggjað ár! Ég vil ekki segja of mikið en ofan á allt lentum við í átökum við ógnvænlegt gengi sem endaði með einum svakalegasta körfuboltaleik lífs míns.

Orri óstöðvandi: Kapphlaupið um silfur Egils

Mér leist nú ekkert sérstaklega vel á það þegar mamma og pabbi tilkynntu okkur Möggu að við værum að fara í gamaldags útilegu. En úr varð ein rosalegasta ferð allra tíma. Við tjölduðum við hliðina á andstyggilegum náunga sem þurfti að kenna smá lexíu, rákumst á sótilla þýska túrista, lentum í fingralöngum Fransmanni og glímdum við hóteldraug, allt meðan við leituðum að frægasta fjársjóði Íslandssögunnar. Ég vil alls ekki ljóstra of miklu upp en þetta er klárlega besta bókin mín hingað til.

Salka: Tölvuheimurinn

Eftir að Hekla fór að gjósa hefur þjóðin verið í útgöngubanni í heilt ár til að verjast stórhættulegri gasmengun. Almenningur hefur varið nánast öllum vökustundum í Tölvuheiminum, sýndarveruleikaútgáfu af lífinu sem flestum finnst jafnvel betri en raunveruleikinn. Það á ekki við um Sölku. Hún er orðin hundleið á því að hanga fyrir framan skjá alla daga og saknar þess að geta leikið við vini sína og spilað körfubolta í alvörunni. En í einni heimsókn til afa hennar breytist allt og skyndilega er hún og bestu vinir hennar, þau Dagur, Kristín og Henrý, á leið í rosalegustu leyniför allra tíma.

120326055_393144545022183_8470790899808994289_n.jpg

Orri óstöðvandi: Bókin hennar Möggu Messi

Þá er bókin hennar Möggu Messi loksins tilbúin og hún er ekkert annað en stórkostleg. Ég vil alls ekki ljóstra of miklu upp en Magga lenti í bandóðum Blikaþjálfara sem reyndi að skemma fyrir henni Rey Cup, versta fólk í heimi flutti í húsið við hliðina á henni, foreldrar hennar reyndu að stela jólunum, hún lenti í ótrúlegri uppákomu í Skálafelli og svo varð hálfgert stríðsástand á Reykjum. Sem betur fer hafði Magga mig sér til halds og trausts í gegnum þessa vitleysu.   

orri2_fb_1200x1200.jpg

Orri óstöðvandi: Hefnd glæponanna.

Það hefur ótrúlega margt gerst hjá okkur Möggu síðan síðast. Við framkvæmdum geggjaðan hrekk á Sigga bróður, skelltum okkur í ógleymanlega veiðiferð með Palla frænda og lentum í dómarasvindli á N1-mótinu. Ég komst líka í kynni við pólska laxerolíu og skellti mér í afmæli sem King Kong. Magga lenti í tómum vandræðum með bókina sína og svo komum glæponarnir á versta tíma til að hefna sín á okkur. Ég vil ekki segja of mikið en ef þér fannst fyrri bókin skemmtileg, þá á þér eftir að finnast þessi sturluð.

43497232_2212709078991277_8977292113263722496_n.jpg

Orri óstöðvandi

Ég heiti Orri, glaðlyndur og hugmyndaríkur 11 ára íþróttastrákur. Orri óstöðvandi er ofurhetjuútgáfa af sjálfum mér. Eini munurinn á honum og mér, er sá að hann er hugrakkari og með meiri trú á sér. Í þessari fyrstu bók um mig og vinkonu mína hana Möggu Messi, sem er sko geggjuð í fótbolta og uppátækjasöm með eindæmum, ætla ég að segja þér frá BESTA ÁRI LÍFS MÍNS.

122448459_1713515212136599_1179196281245132678_n.jpg

Öflugir strákar: Trúðu á sjálfan þig 

Þessi skemmtilega uppsetta sjálfstyrkingarbók er byggð á hinu sívinsæla námskeiði, Öflugir strákar og fjallar um það hvernig þú getur eflt sjálfan þig. Bókin kennir þér meðal annars hvernig þú getur verið ánægðari með þig og öðlast meira sjálfstraust. Hvernig þú getur náð betri árangri í því sem þú hefur áhuga á og tekist á við mótlæti. Hvernig þú getur einbeitt þér að því sem skiptir máli og haft hugrekki til að fara út fyrir þægindarammann. Orri óstöðvandi og Magga Messi koma víða við sögu auk þess sem í bókinni er að finna ýmsar áhugaverðar frásagnir af flottum fyrirmyndum og öflugum strákum.

baekur_mteikn.jpg

Öflugir strákar

Þessi skemmtilega uppsetta sjálfstyrkingarbók fjallar um það hvernig unglingsstrákar geta eflt sjálfan sig, náð betri árangri í því sem þeir taka sér fyrir hendur og lifað aðeins glaðlegra lífi. Bókin byggir á samnefndum námskeiðum þar sem Bjarni kennir strákum meðal annars að styrkja sjálfsmynd sína, standa með sjálfum sér, hafa meiri trú á sér, skipuleggja eigin árangur, einbeita sér betur að núinu og því sem skiptir máli og mikilvægi þess að fara út fyrir þægindarammann.